Laugardaginn 9. nóvember kl. 13-15 verður viðburður á Glerártorgi þar sem starfsemi sjóðsins verður kynnt og sala á skrautinu hefst. Athugið að jólaskrautið kemur í takmörkuðu upplagi.
Velferð er verkefni okkar allra
Velferðarsjóður Eyjafjarðarsvæðis er samstarfsverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar, Hjálpræðishersins á Akureyri, Mæðrastyrksnefndar Akureyrar og nágrennis og Rauða krossins við Eyjafjörð. Sjóðurinn aðstoðar efnaminni einstaklinga og fjölskyldur bæði fyrir jólin og á öðrum tíma árs en reynslan sýnir að eftirspurnin eftir aðstoð er mest í aðdraganda jólanna. Síðustu ár hefur þörfin í samfélaginu aukist mikið.
Neyðin hefur aukist
Fulltrúar sjóðsins hafa séð eftirspurn eftir aðstoð aukast töluvert síðustu mánuði. „Við sjáum að svigrúmið hjá fólki er minna, það þarf minna til að heimilisbókhaldið fari í mínus“ segir Herdís Helgadóttir, formaður stjórnar sjóðsins. Hún segir hópinn sem leitar til sjóðsins eftir aðstoð stækka stöðugt og því miður hafi það verið svo að sjóðurinn hafi ekki getað aðstoðað fólk eins oft eða mikið og æskilegt hefði verið. „Við erum með ákveðnar upphæðir og ákveðinn fjölda skipta en ef vel ætti að vera þyrftum við bæði að hækka upphæðirnar og fjölga skiptunum sem fólk getur sótt aðstoð,“ segir Herdís. „En við úthlutum ekki meiru en því sem við söfnum. Þess vegna er svo mikilvægt að vel gangi núna fyrir jólin, því þetta er sá tími sem við söfnum langmestu.“
Sjóðurinn treystir á framlög frá fyrirtækjum og félagasamtökum á svæðinu. Herdís segir velviljann í samfélaginu ómetanlegan og að yfirleitt hafi gengið vel að safna fyrir jólin. Hún bendir þó á að nú hafi allt hækkað og fólk fái minna fyrir peninginn. Því sé afar mikilvægt að nú safnist meira en áður.
Hannað á Glerártorgi, framleitt í Slippnum
Hluti af söfnuninni fyrir jólin er velferðarstjarnan. Fyrir síðustu jól var ráðist í þetta fallega fjáröflunarverkefni í samstarfi við Glerártorg og Slippinn. Framlag Slippsins í söfnunina er jólaskraut sem Kristín Anna Kristjánsdóttir og Elva Ýr Kristjánsdóttir, verkefnastjórar markaðsmála á Glerártorgi hönnuðu. Skrautið er úr stáli og á því eru mörg hjörtu sem öll tengjast. Þetta er tilvísun í að velferð er verkefni okkar allra, eins og slagorð sjóðsins segir.
Gjafapokar saumaðir á Hlíð og bókasafninu
Þegar sala á velferðarstjörnunni hófst fyrir síðustu jól var ljóst að eftirspurn var eftir fallegum umbúðum utan um skrautið. Nú hefur því verið svarað og fallegir gjafapokar eru saumaðir í dagþjálfuninni á öldrunarheimilinu Hlíð. Einnig er hægt að setjast við saumavél á Amtsbókasafninu og sauma þar einn eða fleiri poka fyrir verkefnið.
„Það er virkilega gaman að fá þessa aðila með okkur og með því að hafa saumavélina uppi á bókasafninu getur hver sem er tekið þátt,“ segir Herdís. „Svo ef þig langar að gefa af þér til verkefnisins getur þú saumað poka fyrir okkur þar. Efnið kemur úr nytjamörkuðum svo þetta er allt unnið á eins umhverfisvænan hátt og við getum.“
Áhersla á peningastyrki
Fyrir jólin eru mörg vön því að gefa jólagjafir undir þar til gert tré, fyrir efnaminni fjölskyldur. Herdís segir það flókið í framkvæmd að deila þeim gjöfum út á sanngjarnan hátt. „Það verða alltaf einhver sem fá draumagjöfina og önnur sem fá lítið sem ekkert sem hentar. Einnig er það ákveðinn umhverfissóðaskapur því við þurfum að opna allar gjafirnar áður en þeim er útdeilt.“ Því vill stjórn sjóðsins beina því til fólks að styrkja frekar með fjárframlögum eða kaupum á velferðarstjörnunni. Fyrir jólin í fyrra voru styrkir við barnafjölskyldur hækkaðir.
„Þau sem vilja gera eitthvað táknrænt, til dæmis að kenna börnunum sínum að gera góðverk fyrir jólin, geta keypt velferðarstjörnu og hengt á sérstakt tré. Það er fallegt tákn um að hafa styrkt þetta mikilvæga málefni fyrir jólin,“ segir Herdís.
Hver króna skiptir máli
Stjórn Velferðarsjóðs Eyjafjarðarsvæðis vill koma á framfæri innilegu þakklæti til allra þeirra sem leggja starfinu lið. Án þessa mikla velvilja í samfélaginu væri ekki hægt að styrkja efnaminni heimili á svæðinu með þeim hætti sem nú er gert. Ykkar stuðningur er ómetanlegur og hver einasta króna skiptir máli.
Þeim sem vilja styrkja jólaaðstoð Velferðarsjóð Eyjafjarðarsvæðis er bent á eftirfarandi söfnunarreikning:
Kt. 651121-0780
Rn. 0302-26-003533