Ljósmyndasýnin "Saga Sóleyjar" opnar 16. október

myndasýning
myndasýning

Sem hluti af bleikum október standa Brakkasamtökin og Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis fyrir ljósmyndasýningunni Of ung fyrir krabbamein? Saga Sóleyjar. Sýningin opnar á Glerártorgi sunnudaginn 16. október. Samtökin eru stolt af því að sýningin er farandssýning um Ísland. Á sýningunni má sjá í máli og myndum baráttu Sóleyjar sem greindist með brjóstakrabbamein aðeins 27 ára gömul. Ljósmyndari fylgdi henni í gegnum ferlið hennar, skurðaðgerð, lyfjameðferð, geislameðferð og annað sem fylgir í gegnum þá erfiðu meðferð sem krabbamein er. 

 

Brakkasamtökin eru hagsmunasamtök fyrir þá sem bera BRCA og aðra erfðabreytileika. Það að bera BRCA stökkbreytingu eykur líkur á krabbameinum gríðarlega og eru t.d. konur sem bera þetta meinvaldandi gen í meira en 80% áhættu á að greinast með brjóstakrabbamein en einnig er aukin áhætta á krabbameinum í eggjastokkum, legi, brisi og húðkrabbameinum svo eitthvað sé nefnt. Karlar sem bera erfðabreytinguna eru í mjög aukinni hættu á blöðruhálskirtilskrabbameini sem og þeim krabbameinum sem talin eru upp hér að ofan sem konur eru í hættu á að fá. Karlmenn geta líka verið arfberar og það eru 50% líkur á að breytingin erfist til barna. Hægt er að kynna sér Brakkasamtökin á www.brca.is