Bragðefnasprengja frá Mexíkó og franskt fínerí

Franskt bistro og mexíkóskur veitingastaður eru meðal þeirra staða sem opna í mathöllinni á Glerárto…
Franskt bistro og mexíkóskur veitingastaður eru meðal þeirra staða sem opna í mathöllinni á Glerártorgi í haust. Myndir: La Cuisine og Fuego

Má bjóða þér bláskel með frönskum? Eða bragðmikla rétti frá Mexíkó? Hvorutveggja verður í boði í nýrri mathöll á Glerártorgi hjá erlendum veitingamönnum sem ætla að koma með ferska strauma til Akureyrar. 

 

 Akureyri.net hitti rekstraraðila tveggja veitingastaða sem senn munu opna í Iðunni Mathöll - Glerártorgi og fékk nasaþef af því sem þeir ætla að bjóða upp á í mathöllinni. Um er að ræða staðina La Cuisine sem er franskt bistro og Fuego Taqueria, sem býður upp á ekta mexíkóskt taco og quesadillas, en báðir staðirnir finnast nú þegar í Reykjavík. La Cuisine er í mathöllinni á Hafnartorgi og þar er Fuego Taqueria líka, en einnig í mathöllinni á Hlemmi.

Mathöllin staður þar sem fólk hittist

„Hugmyndin á bak við mathöll er að skapa stað þar sem fólk kemur saman. Þar getur fólk sem er með ólíkan smekk hist og borðað saman undir sama þaki,“ segir Jeronimo Cudena, forstjóri Fuego Taqueria, þegar hann var staddur á Akureyri til að líta á aðstæður á Glerártorgi, ásamt meðeiganda sínum og yfirkokki staðarins, Chuy Zarate Espinosa. Báðir koma þeir frá Mexíkó, eru mágar, hafa verið búsettir á Íslandi í nokkur ár og með mikinn áhuga á mexíkóskri matargerð. „Við bjóðum upp á alvöru mexíkóskan mat sem á rætur sínar í móðurætt Chuy en hann er maðurinn á bak við allar uppskriftirnar,“ segir Jeronimo. Staðirnir í Reykjavík hafa verið afar vinsælir og fengu eigendurnir nýlega viðurkenningu fyrir „authentic mexican food“ – ekta mexíkóskan mat – en þeir voru fyrsti veitingastaðurinn á Íslandi til þess að hljóta þau.

„Okkur hefur alltaf langað til þess að stækka og kynna mexíkóska matarmenningu víðar. Þegar okkur bauðst þetta tækifæri til að koma norður fannst okkur það of gott til þess að sleppa því.Við höfum líka heyrt margt gott um Akureyri og fólkið hér, svo af hverju ekki?

 

Jeronimo og Chuy til vinstri en þeir standa á bak við mexíkóska staðinn Fuego Taqueria.
Til hægri eru Arthur og Javier sem eru mennirnir á bak við franska bistroið La Cuisine

 

Eigendur La Cuisine voru líka staddir á Akureyri sama dag og mexíkanarnir en gaman er að segja frá því að staðirnir eru nágrannar í mathöllinni á Hafnartorgi. Veitingastaðirnir eru þó gjörólíkir því í La Cuisine ræður frönsk matargerð ríkjum með forstjórann Arthur Lawrence Sassi og yfirkokkinn Javier Mercado Alvarado í broddi fylkingar. Báðir hafa þeir búið á Íslandi í meira en áratug en eins og eigendur Fuego þekkja þeir Akureyri ekki sérlega vel, en sjá Iðunni mathöll sem spennandi tækifæri. „Okkur fannst þetta spennandi tækifæri til þessa stækka og bæta sýnileikann á vörumerki okkar,“ segir Arthur.

Matseðilinn verður ekki alveg sá sami á La Cuisine á Akureyri og á Hafnartorgi. Arthur lofar því að einkennisréttur þeirra, bláskel og franskar, verði fáanlegur í Iðunni mathöll en reiknar með því að það verði meiri grillréttir í boði fyrir norðan en sunnan. „Þessi staður sem við erum að opna hér er minni heldur en sá sem við erum með í Reykjavík svo við verðum að aðlaga okkur að því. Við höfum ræturnar í fínni franskri matargerð en við erum hrifnir af einföldum góðum hlutum” segir Javier.

„Það góða við að vera hér á Glerártorgi er að veitingastaðirnir eru nálægt hver öðrum sem gefur viðskiptavinum góða yfirsýn yfir það sem er í boði á öllum stöðum. Okkur fannst það kostur."

 

 Lesa má allt viðtalið á Akureyri.net: https://www.akureyri.net/is/moya/news/bragdefnasprengja-fra-mexiko-og-franskt-fineri