Lausa skrúfan verður á Glerártorgi helgina 15.–16. febrúar milli kl 12:00 og 17:00 og býður öllum sem vilja að koma og ræða um geðheilbrigði, kynna sér verkefnið og veita stuðning. Þátttakendur úr Grófinni Geðrækt verða á staðnum til að segja frá mikilvægi geðræktar og safna framlögum til að halda starfsemi Grófarinnar gangandi, sem nú stendur frammi fyrir fjórfalt hærri húsnæðiskostnaði en áður. Einnig mun Svavar Knútur tónlistarmaður koma og syngja lög og segja sögur fyrir gesti og gangandi klukkan 14:00 á laugardaginn.
Sunnudaginn 16. febrúar milli kl. 14:00 og 16:00 gefst öllum tækifæri til að kynna sér störf viðbragðsaðila á Akureyri. Verða þeir með hin ýmsu tæki, tól og bíla til sýnis á Glerártorgi ásamt því að vera sjálf á staðnum og fræða gesti og gangandi.
Neyðarlínan heldur upp á 112 daginn þann 11. febrúar á hverju ári því að dagsetningin 11. 2. minnir okkur á neyðarnúmer allra landsmanna, 112. Viðbragðsaðilar af svæðinu keyrðu hring um Akureyri á þriðjudaginn og þakka kærlega fyrir tillitsemi og góð viðbrögð. Núna halda þau 112 daginn hátíðlegan og verða á Glerártorgi til þess að gefa innsýn í þau fjölbreyttu verkefni og tæki sem þau vinna með.
Börn geta verið stórkostlegar fyrirmyndir þegar kemur að öryggi og forvörnum og verður því þema 112 dagsins 2025 Börn og öryggi.
Börn geta verið fyrirmyndir á marga vegu í daglegu lífi, eins og þegar þau ganga með endurskinsmerki eða eru með hjálm þegar þau hjóla. Þegar þau spenna beltin í bíl og auðvitað þegar þau minna fullorðna á að vera ekki í símanum við akstur. Börn eru líka aðstoðarmenn slökkviliðs í leik- og grunnskóla og eru frábærir innhringjendur þegar þau hringja í Neyðarlínuna. Einnig verður boðið upp á candy floss fyrir yngstu kynslóðina.
Við hvetjum alla sem hafa áhuga á að kynna sér störf viðbragðsaðila til þess að mæta og halda upp á daginn með okkur.
Sjáumst á Glerártorgi