Miðvikudaginn 19. maí opnar Skógarlundur, miðstöð virkni og hæfingar sýningu á Glerártorgi.
Augnstýribúnaður hefur verið notaður með góðum árangri með einstaklingum sem hafa skerta hreyfifærni en hafa stjórn á augnhreyfingum. Það sem einstaklingurinn þarf að gera til að fá fram virkni er að horfa á tölvuskjáinn. Í augnstýribúnaði er hægt að búa til borð til tjáningar, mála með augunum og til eru leikir sem búnir eru til í þeim tilgangi að þjálfa einstaklinga til að nota augnstýringu.
Við í Skógarlundi eigum ekki augnstýribúnað en okkur langaði að prófa hvort við gætum notað hann með okkar fólki og fengum hann því lánaðan frá sérdeild Giljaskóla. Margir þjónustunotendur prófuðu að mála með augunum og nú sýnum við afraksturinn á Glerártorgi
Það er markmið okkar að eignast augnstýribúnað. Sýningin er fyrsta skrefið og langar okkur með henni að vekja athygli á því hversu mikilvægt það er að eiga búnað sem getur aukið möguleika margra í Skógarlundi til virkni, tjáningar og aukinna lífsgæða